Yfirlit
Viaplay er internetþjónusta sem veitir einstaklingum aðgang að hljóð- og myndefni gegnum kaup, leigu eða áskrift, með eða án bindandi samningstíma í skráðum tækjum („þjónustan“ eða „Viaplay“). Boðið er upp á þjónustuna í gegnum ólíka efnispakka sem veita aðgang að sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, íþróttaviðburðum og öðru efni sem dreift er með streymi og/eða niðurhali („efnispakki“). Upplýsingar um aðgengilega efnispakka hverju sinni er að finna á vefsíðunni Viaplay.is og Viaplay.com (hér eftir sameiginlega „vefsíðan“). Þjónustan er aðgengileg í öllum stýrikerfum í gegnum forrit Viaplay („forritið“) og vefsíðuna.
Upplýsingar um okkur
Viaplay er veitt af Viaplay Group Sweden AB, fyrirtækjaskráningarnúmer 556304-7041, með heimilisfang í pósthólfi 171 04, 104 62 Stokkhólmi („Fyrirtækið“, „við“, „okkar“ eða „okkur“). Fyrirtækið tilheyrir hópi fyrirtækja þar sem Viaplay Group AB, fyrirtækjaskráningarnúmer 559124-6847, er móðurfélag („fyrirtækjahópurinn“). Þú sem viðskiptavinur og notandi þjónustunnar („þú“, „þinn“, „þínir“ eða „þitt“) getur skoðað siðareglur og stefnu fyrirtækjahópsins með því að fara á vefsíðu hópsins: www.viaplaygroup.com
Þjónustan er undir eftirliti sænska eftirlitsaðilans Myndigheten för press, radio och tv (MPRT). MPRT hefur m.a. eftirlit með ritstjórnarlegu innihaldi efnisveitna sem byggja á stökum kaupum, sem felur m.a. í sér að tryggja samræmi við viðeigandi reglugerðir. Slíkar viðeigandi reglugerðir ná m.a. til krafna um að tiltekið efni sé ekki aðgengilegt börnum undir lögaldri, að tiltekið efni megi ekki sýna (þ. á m. efni sem ýtir undir hatur vegna kynþáttafordóma, kyns, trúar eða þjóðernis) og hafa að gera með eftirlit á útsendingu efnis sem inniheldur vöruinnsetningar og kostunaraðila á einstöku efni eða þjónustu.
Ef þú hefur sent Fyrirtækið kvörtun varðandi efni sem þér er boðið upp á í gegnum þjónustuna og ert áfram óánægð(ur) með svarið við kvörtuninni geturðu sent kvörtunina áfram til MPRT gegnum vefsvæðið www.mprt.se/anmal-program.
Aðrar og almennar spurningar varðandi tæknileg vandamál, reikninga, uppsetningu eða markaðssetningu skal senda okkur og nota til þess samskiptaupplýsingarnar í þessum almennu skilmálum.
Almennir skilmálar
Þessir almennu skilmálar (ásamt þeim skjölum sem hér er vísað til) gilda og eru lagalega bindandi fyrir alla notendur þjónustunnar. Þú verður að lesa og samþykkja þessa almennu skilmála áður en þú notar þjónustuna. Með því að nota þjónustuna gefurðu til kynna að þú viðurkennir og samþykkir þessa almennu skilmála og ætlir þér að fara eftir þeim. Þessir almennu skilmálar gilda á meðan viðskiptasamband þitt við okkur stendur yfir. Ef þú á einhverjum tíma samþykkir ekki eða getur af öðrum sökum ekki farið eftir þessum almennu skilmálum hefur þú ekki rétt til að nota þjónustuna.
Ef þú vilt nota Viaplay á Apple TV eða iOS-tæki og vilt nota iTunes til að kaupa efni verður þú einnig að samþykkja skilmála Apple vegna iTunes. Aðgangur að þjónustunni er einnig í boði gegnum aðrar þjónustur eða gegnum pakka sem fyrirtækjahópurinn okkar eða samstarfsaðilar fyrirtækjahópsins bjóða og í þeim tilvikum kunna sérstakir skilmálar að gilda, sem þarf (hugsanlega samhliða öðrum skilmálum) að samþykkja áður en hægt er að nota þjónustuna.
Aðgengi og notkun þjónustunnar
Til að geta notað þjónustuna þarftu að gerast viðskiptavinur hjá okkur með því að stofna notandareikning. Þetta gerirðu með því að skrá þig á vefsíðunni eða í forritinu og samþykkja þessa almennu skilmála og viðeigandi skjöl (þú getur lesið nánar um þetta undir fyrirsögninni „Notandanafn og lykilorð“ hér að neðan).
Þú getur hvenær sem er valið að slíta viðskiptasambandi þínu við okkur með því að eyða notandareikningnum þínum. Þú eyðir notandareikningnum þínum með því að hafa samband við þjónustuverið okkar (samskiptaupplýsingar er að finna undir „Samskiptaupplýsingar“ hér að neðan). Til að geta fjarlægt notandareikning þinn vegna þjónustunnar verður þú fyrst að hafa sagt upp áskrift þinni hjá okkur (nánar um þetta undir „Uppsögn af þinni hálfu“ hér að neðan).
Kaup á efni (Electronic Sell Through) veita ótakmarkaðan aðgang að straumspilun og spilun á efni sem notandi hefur keypt, svo fremi sem samningur milli okkar og rétthafa er til staðar. Einnig er hægt að hlaða niður keyptu efni og horfa á það án nettengingar á þeim tækjum þar sem Viaplay styður þann eiginleika. Verði samningi okkar við rétthafa rift, eða ef keypta efnið verður óaðgengilegt af öðrum ástæðum (til dæmis af tæknilegum ástæðum) átt þú rétt á endurgreiðslu í samræmi við andvirði efnisins, sem er veitt sem inneignarmiði sem nota má við kaup á þjónustunni.
Þegar þú hefur stofnað notandareikning á vefsíðunni geturðu fengið aðgang að þjónustunni með því að:
- kaupa ótímabundna mánaðaráskrift með því að velja einn eða fleiri efnispakka og greiða fyrirfram mánaðargjald („áskriftargjald“) þar til þú velur að segja upp áskriftinni. Hvert mánaðartímabil þar sem þú ert í áskrift að þjónustunni með því að greiða áskriftargjaldið kallast „áskriftartímabilið“;
- greiða staka greiðslu til að fá aðgang að tilteknu efni („eingreiðsla“), annaðhvort með kaupum (rafræn eignarkaup, e. Electronic Sell Through), leigu í 48 tíma (af leigu- og kaupsvæðinu) eða með kaupum á beinni útsendingu frá tilteknum viðburðum, t.d. stökum fótboltaleikjum (stök streymikaup, e. pay-per-view); eða
- ef þess er kostur, kaupa áskrift með binditíma með því að velja einn eða fleiri efnispakka í fyrirfram ákveðið tímabil sem sagt er til um þegar samningurinn er gerður (t.d. 12 mánuði) („áskrift með binditíma“) og vera í áskrift að þjónustunni allt fyrirfram ákveðna tímabilið og greiða áskriftargjaldið fyrirfram í hverjum mánuði, eða í samræmi við viðeigandi samning. Fyrirfram ákveðna tímabilið sem tekið er fram þegar samningur er gerður er stysta mögulega tímabil sem þú verður að vera í áskrift að þjónustunni („binditími“) ef þú hefur valið áskrift með binditíma. Eftir að binditímanum lýkur breytist áskriftin þín sjálfkrafa í áskrift með mánaðarlegu áskriftargjaldi sem heldur áfram, samkvæmt atriði a. hér að ofan, þar til þú velur að segja upp áskriftinni.
Aðgengi að þjónustunni er einnig mögulegt í gegnum aðra þjónustu af hálfu Fyrirtækið eða annarra fyrirtækja innan eða utan fyrirtækjahópsins í samstarfi við Fyrirtækið. Til að stofna notandareikning og fá aðgang að þjónustunni verður þú:
- að hafa náð 18 ára aldri;
- að hafa varanlega búsetu á Íslandi („landsvæðið“);
- að sæta hefðbundinni athugun á greiðslugetu;
- að staðfesta að upplýsingarnar sem þú gafst upp við skráninguna séu réttar og sannleikanum samkvæmar og að þér beri að tilkynna okkur um það ef þessar upplýsingar breytast;
- að skilja að þjónustan er aðgengileg á landsvæðinu þar sem þú hefur lögheimili ásamt öðrum EES-löndum, að því gefnu að þú dveljir aðeins tímabundið í öðru EES-landi. Við tökum á engan hátt neina ábyrgð á hugsanlegum kostnaði, lögbrotum eða öðru, þ. á m. skaðabótaábyrgð, sem þú veldur með því að nota eða reyna að nota þjónustuna utan landsvæðisins;
- að nota þjónustuna einungis fyrir persónulega einkanotkun, og þar með ekki í neins konar viðskiptaskyni eða ólöglega notkun;
- að sjá til þess að þú hafir aðgang að viðeigandi þráðlausri nettengingu;
- að sjá til þess að þau tæki sem skráð eru til notkunar á þjónustunni séu tekin fram í hlutanum „Stýrikerfi með stuðningi“ á vefsíðunni;
- að sjá til þess að þjónustan sé ekki notuð í neinum ólöglegum eða óviðeigandi tilgangi og sjá til þess að enginn annar geri það gegnum þinn notandareikning;
- að sjá til þess að vörur, þjónustur og annað sem tilheyrir okkur og/eða fyrirtækjahópnum séu ekki seldar með neinum hætti til þriðja aðila og þar með sé brotið gegn þessum almennu skilmálum; og
- að skrá greiðsluupplýsingar þínar.
Meðferð persónuupplýsinga
Þegar þú skráir þig fyrir notandareikningi til að nota þjónustuna og þegar þú notar þjónustuna söfnum við tilteknum upplýsingum um þig. Þú getur lesið meira um það hvaða upplýsingum við söfnum saman og hvernig við vinnum þær í persónuverndarstefnunni okkar.
Tækjabúnaður, stýrikerfi og tenging
Geta þín til að nota þjónustuna er háð því að þú sért með viðeigandi tækjabúnað, stýrikerfi og tengingu. Áður en þú greiðir eingreiðslu eða kaupir áskrift að þjónustunni verður þú að tryggja að þú sért með viðeigandi tækjabúnað, stýrikerfi og tengingu til að nota þjónustuna eins og þú ætlar þér. Á vefsíðunni er að finna lágmarkskröfur vegna stýrikerfis fyrir þjónustuna. Þótt þessar lágmarkskröfur vegna stýrikerfis séu uppfylltar er þó ekki hægt að tryggja að þú getir alltaf horft á þjónustuna án truflunar, bilana í útsendingu og þess háttar. Undir „Stýrikerfi með stuðningi“ geturðu séð hvaða stýrikerfi þú getur notað til að nýta þér þjónustuna.
Við getum endrum og sinnum ákveðið hvaða tæki þú þarft að nota til að geta nýtt þér þjónustuna. Þú hefur sem stendur aðeins rétt til að skrá og nota þjónustuna á fjórum (4) tækjum hið mesta, en nánari upplýsingar um tæki er að finna undir „Stýrikerfi með stuðningi“ á vefsíðunni. Þú getur í mesta lagi skipt út einu (1) skráðu tæki á hverju níutíu (90) daga tímabili. Þau tæki sem þú getur skráð til notkunar á þjónustunni hverju sinni eru talin upp undir „Stýrikerfi með stuðningi“ á vefsíðunni. Við tökum enga ábyrgð á tækjum sem eru framleidd, seld eða notuð af öðrum en okkur, og við getum heldur ekki tryggt virkni eða samhæfi slíkra tækja við þjónustuna.
Þú getur streymt efni á tveimur (2) skráðum tækjum hið mesta á sama tíma. Ef þú hefur greitt fyrir aðgang að beinni útsendingu á viðburði, t.d. með stökum streymikaupum, geturðu hins vegar aðeins streymt þessu efni á einu (1) skráðu tæki í einu.
Þú samþykkir að yfirálag á vefsíðunni eða önnur nettengingar-, ISP-, rafmagns-, tölvu- eða samskiptavandamál eða -bilanir geta haft áhrif á aðgengi að þjónustunni og að við tökum ekki ábyrgð á hugsanlegum takmörkunum á notkun þjónustunnar sem orsakast af slíku yfirálagi eða vandamálum/bilunum.
Þú samþykkir að selja ekki, afhenda eða láta með nokkrum hætti af hendi neina vöru, þjónustu eða annað sem tilheyrir Fyrirtækið og/eða fyrirtækjahópnum til neins þriðja aðila, enda er með því brotið gegn þessum almennu skilmálum.
Notandanafn og lykilorð
Þegar þú skráir þig og býrð til notandareikning á vefsíðunni þarftu að velja þér notandanafn og lykilorð til að geta skráð þig inn og notað þjónustuna. Ef þú skráir þig inn með Apple TV í gegnum iTunes þarftu aðeins að velja þér lykilorð ef þú vilt geta fengið aðgang að þjónustunni í öðrum skráðum tækjum en þínu Apple TV.
Notandanafn og lykilorð teljast vera trúnaðarupplýsingar og þeim skal ekki deila með neinum þriðja aðila. Við höfum rétt á því hvenær sem er, með hæfilegum fyrirvara, að biðja þig um að breyta lykilorðinu þínu. Þú gerir þér ljóst og samþykkir að slík ósk um breytingu á lykilorði getur valdið tímabundnu rofi á aðgengi þínu að þjónustunni.
Ef þig grunar að einhver annar sé að nota notandanafn þitt og/eða lykilorð ber þér skylda til að láta okkur umsvifalaust vita af þessari óviðkomandi notkun og breyta lykilorði þínu. Ef við höfum ástæðu til að gruna að óviðkomandi einstaklingur hafi fengið aðgang að notandanafninu og/eða lykilorðinu, eða hafi misnotað þessar upplýsingar á annan hátt, höfum við rétt á því að loka umsvifalaust fyrir þjónustuna og/eða gera þjónustuna óaðgengilega þér, eða nota aðrar leiðir til að koma í veg fyrir slíkt áframhaldandi og óleyfilegt athæfi.
Notandasíður
Í tengslum við notkun þína á þjónustunni býðst þér möguleiki á að búa til þína eigin síðu („notandasíður“). Notandasíðan gerir þér kleift að gera upplifun þína af þjónustunni persónulegri, m.a. þannig að mælt er með kvikmyndum og sjónvarpsþáttum út frá því hvaða kvikmyndir og sjónvarpsþætti þú hefur áður horft á. Á hverri notandasíðu er einnig vistaður streymiferill með því efnisinnihaldi sem notandi á bakvið notandasíðuna hefur áður horft á. Tekið skal fram að allar notandasíður sem gerðar eru í gegnum notandareikning eru aðgengilegar öllum sem nota notandareikninginn, en þetta hefur í för með sér að þú sem eigandi reikningsins, og/eða aðrir notendur notandareikningsins, getið skoðað, opnað, breytt eða eytt notandasíðum. Þú sem eigandi reikningsins berð þó alltaf ábyrgð á því að sjá til þess að allir notendur notandareikningsins fari eftir og skilji innihaldið í þessum almennu skilmálum og hafi skoðað persónuverndarstefnuna og vefkökustefnu okkar.
Vissar gerðir notandasíðna, s.s. notandasíður fyrir börn, eru stilltar með þeim hætti að notkun þjónustunnar hæfi börnum, m.a. með því að takmarka aðgang að þeim hlutum þjónustunnar sem kalla á samþykki af hálfu foreldra eða forsjáraðila.
Börn undir lögaldri
Þjónustan getur innihaldið efni sem er óviðeigandi fyrir börn undir lögaldri og getur af öðrum sökum verið truflandi.
Ef þú vilt takmarka aðgang barns að þjónustunni mælum við með því að þú búir til notandasíðu sem ætluð er barni, en hún takmarkar aðgang barnsins að vissum hlutum þjónustunnar sem ekki eru við hæfi barna. Almenn notkun þjónustunnar er ekki við hæfi barna nema í fylgd með foreldrum eða forsjáraðilum og án eftirlits, umsjónar og samþykkis þeirra. Þú getur einnig takmarkað aðgengi að leigu og kaupum á efnisinnihaldi í þjónustunni með því að virkja kauplæsinguna, sjá kaflann „Kauplæsing“ hér að neðan.
Kauplæsing
Undir „Reikningurinn minn“ geturðu valið að virkja aðgerðina „Kauplæsing“, en með henni geturðu valið fjögurra talna kóða sem kemur í veg fyrir að utanaðkomandi, og/eða börn, geti leigt og keypt efnisinnihald í þjónustunni. Athugaðu að eigandi reikningsins/þú ber ábyrgð á allri notkun þjónustunnar. Ef þú virkjar kauplæsinguna skaltu því ekki gefa öðrum notendum þjónustunnar upp fjögurra talna PIN-kóðann.
Netfang
Upplýsingar og tilkynningar frá okkur munu berast í það netfang sem gefið var upp þegar notandareikningurinn þinn var skráður. Ef skipt er um netfang skaltu án tafar uppfæra notandasíðu þína á vefsíðunni. Við höfum rétt á því að líta á netfangið sem síðast var gefið upp sem rétt netfang viðskiptavinar. Við sendum þér reglulega tölvupóst með áhugaverðum upplýsingum um vörur og þjónustu Viaplay. Þú getur með einföldum hætti og þér að kostnaðarlausu afþakkað slíkar sendingar með því að smella á tengilinn „Afskráning“ neðst í viðkomandi tölvupósti, með stillingum á „Reikningurinn minn“ eða með því að hafa samband við þjónustuver okkar (samskiptaupplýsingar er að finna í kaflanum „Samskiptaupplýsingar“ hér að neðan.
Greiðslur og vanskil
Skilyrði fyrir notkun þinni á þjónustunni er að þú skráir greiðsluupplýsingar þínar í þjónustuna.
Á vefsíðunni er að finna upplýsingar um það hvaða greiðslumáta er hægt að nota til að greiða fyrir þjónustuna.
Í tengslum við skráninguna á greiðsluupplýsingum þínum vegna notkunar á þjónustunni mun þriðji aðili, viðurkenndur samkvæmt alþjóðlegum öryggisstöðlum (PCI DSS Payment Card Industry Data Security Standard) og samkvæmt beiðni frá Viaplay, vista og hafa umsjón með þeim greiðsluupplýsingum sem eru skilyrði fyrir notkun á þjónustunni.
Eingreiðslur eru greiddar þegar kaupin fara fram og áskriftargjöld eru greidd mánaðarlega og fyrirfram með úttekt af kreditkorti eða debetkorti sem þú hefur gefið upp við skráningu á notandareikningi, eða með annarri samþykktri greiðsluaðferð. Ef þú greiðir gegnum greiðsluþjónustu sem er veitt af þriðja aðila má vera að þú verðir beðinn að samþykkja þjónustuskilmála viðkomandi greiðsluþjónustuveitanda. Viaplay ber ekki ábyrgð á þjónustuskilmálum þriðja aðila. Ef þú greiðir eingreiðslu eða ef þú hefur skráð þig í áskrift í gegnum Apple TV eða iOS-tæki í gegnum iTunes (þar sem sá kostur býðst) verður eingreiðslan og/eða áskriftargjaldið tekið út af því kreditkorti eða debetkorti sem þú hefur tengt við í iTunes.
Ef ekki er hægt að innheimta eingreiðslur í gegnum iTunes þarftu, ef þú hefur skráð þig í áskrift að þjónustunni í gegnum Apple TV eða iOS-tæki í gegnum iTunes, að gefa upp annan greiðslumáta fyrir eingreiðslur, t.d. kreditkort eða debetkort. Upplýsingar um framkvæmd kaup er að finna á vefsíðunni undir „Reikningurinn minn“.
Gjöld vegna endurnýjunar á mánaðaráskrift koma til greiðslu í lok hvers áskriftartímabils. Ef þú ert með áskrift með binditíma þar sem áskriftargjaldið er greitt mánaðarlega er áskriftargjaldið greitt í samræmi við gildandi skilmála fyrir viðkomandi greiðsluþjónustu.
Þér er skylt að leitast eftir því að tryggja að á kredit- eða debetkortunum eða öðrum greiðsluleiðum sé næg innistæða til að greiða áskriftargjaldið og/eða eingreiðslu („gjöldin“) þegar gjöldin eru innheimt. Ef seinkun verður á greiðslu eigum við rétt á að innheimta dráttarvexti á vanskilareikninga samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, lögbundið ítrekunargjald og lögbundið innheimtugjald, þegar við á. Ef þú hefur ekki næga innistæðu til greiðslu á eindaga, eða ef ekki er hægt að framkvæma greiðsluna af öðrum sökum, eigum við rétt á að halda áfram að innheimta af þér gjöldin, auk þess að láta fara fram fleiri innheimtutilraunir þar til greiðsla er innt af hendi. Á meðan beðið er eftir greiðslu höfum við tafarlaust rétt á að rjúfa eða takmarka („frysta“) aðgengi þitt að þjónustunni þar til greiðsla er innt af hendi. Við höfum einnig hvenær sem er rétt á að segja tafarlaust upp áskriftinni og/eða aðgangi þínum að þjónustunni í heild sinni ef vanskil þín dragast um meira en tíu (10) daga. Ef þú ert með áskrift með binditíma ber þér að greiða tafarlaust öll viðkomandi gjöld fyrir eftirstöðvar binditímans, jafnvel þótt við segjum upp áskriftinni samkvæmt þessum kafla. Ef ekki er næg innistæða til að greiða gjöldin og vanskil þín hafa dregist í meira en tíu (10) daga eigum við rétt á að innheimta skuldina með öðrum hætti.
Ef þú hefur keypt áskrift að Viaplay gegnum þriðja aðila og reikningur fyrir þá þjónustu er ekki gefinn út af okkur skulu greiðsluskilmálar þriðja aðilans gilda.
Gjöld og breytingar á pökkum
Gjöld eru samkvæmt gildandi verðskrá okkar hverju sinni. Þegar horft er á leigða eða keypta kvikmynd, beina útsendingu frá tilteknum viðburði, t.d. stök streymikaup og efni keypt eftir pöntun, bætist við viðbótarkostnaður. Öll verð er að finna á vefsíðunni og þau kunna að breytast af okkar hálfu; þér verða sendar upplýsingar um slíkar breytingar í samræmi við kaflann „Gjaldskrárbreytingar“ hér að neðan. Að undanskildum réttindum þínum undir „Réttur til að falla frá samningi“ eru engin greidd gjöld endurgreidd og við endurgreiðum hvorki né veitum inneign vegna þjónustu sem ekki er notuð eða aðeins notuð að hluta.
Að því gefnu að þú sért með ótímabundna áskrift (s.s. ekki áskrift með binditíma) hefur þú rétt á að breyta um efnispakka á áskriftartímabilinu. Til að breyta um efnispakka ferðu inn á „Reikningurinn minn“ á vefsíðunni. Ef þú velur að uppfæra áskriftina þína getur það leitt til hærra áskriftargjalds en var fyrir hendi áður en uppfærslan fór fram. Nýja áskriftargjaldið verður tekið út af kredit- eða debetkortinu þínu eða innheimt með annarri greiðsluleið sem þú hefur valið, sama dag og þú velur að uppfæra áskriftina, og áskriftargjaldið sem áður var greitt verður umreiknað í réttu hlutfalli það sem eftir stendur af áskriftartímabilinu. Nýja áskriftargjaldið tekur gildi frá og með næsta gjalddaga. Ef þú velur að breyta áskriftinni með því að velja efnispakka á lægra verði munu bæði verðbreytingin og breytingin á efnispakkanum taka gildi á næsta gjalddaga.
Ef þú hefur keypt áskrift fyrir Apple TV eða iOS-tæki í gegnum iTunes þarftu að breytaefnispakka í iTunes. Ef einhverjar spurningar vakna eða ef þú vilt fá aðstoð við breytingar á efnispakka geturðu haft samband við þjónustuverið okkar (samskiptaupplýsingar er að finna í kaflanum „Samskiptaupplýsingar“ hér að neðan).
Gjaldskrárbreytingar
Við höfum rétt á að breyta gjaldi fyrir þjónustuna („gjaldskrárbreytingar“).
Okkur ber skylda til að láta þig vita af gjaldskrárbreytingum á áskrift án binditíma í gegnum tölvupóst og/eða notandareikning þinn í þjónustunni, í síðasta lagi þrjátíu (30) dögum áður en gjaldskrárbreytingin tekur gildi. Umsamið verð fyrir áskrift með binditíma gildir allan binditímann, án nokkurra gjaldskrárbreytinga.
Þrátt fyrir ofangreint geta gjaldskrárbreytingar átt sér stað með styttri fyrirvara, einnig með binditíma, ef dreifingarkostnaður okkar og annar kostnaður við að gera þjónustuna aðgengilega eykst vegna breytinga á sköttum eða almennum gjöldum, gengisbreytinga, gjaldskrárbreytinga hjá þriðju aðilum, stjórnvaldsákvarðana eða breytinga á lögum eða annarri stjórnskipun, og ef upphæð gjaldskrárbreytingarinnar í mesta lagi sú sama og kostnaðaraukningin.
Ef þú samþykkir ekki gjaldskrárbreytinguna hefurðu rétt á að segja upp áskriftinni frá og með gildisdagsetningu gjaldskrárbreytingarinnar, að því gefnu að okkur hafi borist tilkynning þess efnis í síðasta lagi þremur (3) dögum fyrir gildistöku gjaldskrárbreytingarinnar.
Gjaldskrárbreyting getur einnig falið í sér upptöku nýrra gjalda.
Prufutilboð
Í vissum tilfellum er hugsanlegt að við bjóðum nýjum viðskiptavinum aðgang að efnispökkum okkar í tiltekinn tíma, án greiðslu („tilboðið“). Til að geta nýtt þér tilboðið mátt hvorki þú né annað heimilisfólk hafa nýtt sér tilboðið eða svipuð markaðssetningartilboð frá okkur.
Þú getur nýtt þér tilboðið frá og með þeim tíma sem þú hefur samþykkt tilboðið, sett upp notandareikning og staðfest reikningsupplýsingar þínar á vefsíðunni. Ef þú hefur skráð þig fyrir tilboðinu á Apple TV eða iOS-tæki í gegnum iTunes geturðu nýtt þér tilboðið frá og með þeim tíma sem þú hefur samþykkt tilboðið, sett upp notandareikning og staðfest reikningsupplýsingar þínar í Apple TV eða iOS-tæki.
Þegar prufutímabili tilboðsins lýkur breytist tilboðið sjálfkrafa í áskrift án binditíma sem innheimt verður fyrir samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni (og er að finna á vefsíðunni) fyrir þann efnispakka sem þú velur, að því gefnu að þú veljir ekki að falla frá samningi um tilboðið í samræmi við kaflann „Réttur til að falla frá samningi“ hér að neðan, eða ef þú segir tilboðinu upp í síðasta lagi á lokadegi prufutímabilsins. Ef þú fellur frá eða segir upp samningi um tilboð lýkur því tafarlaust. Við höfum rétt á því að breyta gjöldum á meðan tilboðið stendur yfir, í samræmi við kaflann „Gjaldskrárbreytingar“ hér að ofan.
Hægt er að segja tilboðinu upp eða falla frá samningi um það á „Reikningurinn minn“ í uppsagnarhlutanum.
Ef þú hefur skráð þig fyrir tilboðinu í gegnum Apple TV eða iOS-tæki í gegnum iTunes verður við lok tilboðsins innheimt fyrir efnispakka með viðeigandi gjaldi samkvæmt gjaldskrá hverju sinni (sem er að finna á vefsíðunni), að því gefnu að þú veljir ekki að segja upp tilboðinu. Ef þú velur að verða ekki greiðandi viðskiptavinur verður þú að segja tilboðinu upp á meðan prufutímabilið stendur yfir. Þá lýkur tilboðinu eftir lokadag prufutímabilsins. Ef þú vilt falla frá samningi um tilboðið eða segja því upp skaltu fara á „Reikningurinn minn“ og smella á tengilinn fyrir iTunes. Ef þú skráir þig fyrir tilboði á þjónustunni gegnum þriðja aðila kunna tilteknir skilmálar að gilda, meðal annars varðandi uppsögn, og önnur verðskrá kann að taka gildi þegar tilboðstímabilinu lýkur, í samræmi við frekari samninga við þriðja aðilann.
Ef þú nýtir þér réttinn til að falla frá samningi eða segir tilboðinu upp geturðu ekki lengur nýtt þér tilboðið eða skráð þig fyrir því aftur.
Breytingar á þjónustunni
Við höfum rétt á því hvenær sem er að gera breytingar á þjónustunni. Ef breytingarnar eru veigamiklar færðu upplýsingar um þær með tölvupósti og/eða í gegnum „Reikningurinn minn“, í síðasta lagi þrjátíu (30) dögum áður en breytingin tekur gildi. Breyting af þessu tagi tekur gildi á þeirri dagsetningu sem gefin er upp í tilkynningunni, þó í fyrsta lagi þrjátíu (30) dögum frá því tilkynningin var send. Þrátt fyrir ofangreint gæti breyting átt sér stað með styttri fyrirvara en þrjátíu (30) dagar ef breytingin er grundvölluð á hugsanlegu lögbroti, stjórnvaldsákvörðun, lagabreytingu eða vegna ófyrirséðra atburða (í samræmi við neðangreint). Ef breytingin felur í sér veigamiklar breytingar á þjónustunni hefur þú rétt á að segja uppskriftinni upp, með gildi frá deginum sem breytingin tekur gildi, að því gefnu að tilkynning þess efnis hafi borist okkur fyrir daginn sem breytingin tekur gildi.
Þar sem stefna okkar er að betrumbæta þjónustuna stöðugt er ekki litið á tilfallandi breytingar og uppfærslur á efnisinnihaldi þjónustunnar (s.s. þegar tilteknir sjónvarpsþættir, kvikmyndir eða íþróttaviðburðir detta út eða er bætt við) og breytingar á útliti vefsíðunnar sem breytingar í skilningi þessa kafla.
Samningstími og sjálfvirk áskriftarendurnýjun
Þegar þú færð þér áskrift að efnispakka verður áskriftin endurnýjuð sjálfkrafa í hverjum mánuði, í lokin á áskriftartímabilinu eða eftir viðeigandi binditíma, og við munum halda áfram að innheimta áskriftargjaldið þar til þú segir upp áskriftinni.
Uppsögn af þinni hálfu
Þjónustunni, og þar með áskriftinni, geturðu sagt upp undir „Reikningurinn minn“ á vefsvæðinu, í uppsagnarhlutanum. Uppsögn þín tekur gildi:
- í lok áskriftartímabilsins þar sem þú tilkynnir okkur að þú viljir segja upp áskriftinni (ef þú ert með áskrift með binditíma tekur uppsögnin ekki gildi fyrr en binditímanum lýkur); eða
- í lok uppsagnarfrestsins sem lýst er í köflunum „Breytingar á þjónustu“, „Verðbreytingar“ eða „Útfærslur“ í þessum almennu skilmálum, að því gefnu að þú tilkynnir okkur um uppsögn þína í samræmi við þessa kafla.
Ef þú hefur sem nýr viðskiptavinur fengið aðgang að efnispökkum okkar án greiðslu á prufutímabili og vilt falla frá samningi um tilboðið eða segja því upp á prufutímabilinu gilda ofangreindar upplýsingar undir kaflanum „Prufutilboð“.
Tekið skal fram að viðskiptasambandið á milli þín og okkar er í gildi, ásamt þessum almennu skilmálum, á meðan þú ert enn með notandareikning hjá okkur. Þú getur lesið nánar um það hvernig þú fjarlægir notandareikninginn þinn og slítur viðskiptasambandinu undir „Aðgengi og notkun þjónustunnar“ hér að ofan.
Ef þú vilt segja upp áskriftinni fyrir tímann (t.d. ef þú vilt slíta viðskiptasambandinu við okkur) er þér engu að síður skylt að greiða fyrir eftirstandandi áskriftartímabil eða viðeigandi binditíma.
Við endurgreiðum engin notkunargjöld eða önnur gjöld sem þú hefur þegar greitt okkur.
Ef þú segir upp áskrift þinni muntu áfram hafa aðgang að því efni sem þú keyptir í gegnum rafræn eignarkaup. Við áskiljum okkur þó rétt til að slíta eða takmarka aðgang þinn að þessu efni.
Ef þú hefur keypt áskrift gegnum þriðja aðila, t.d. iTunes þarftu að segja áskriftinni upp í með því að hafa samband við þriðja aðilann og í samræmi við skilmála þriðja aðila.
Uppsögn af okkar hálfu
Við áskiljum okkur þann rétt að geta hvenær sem er sagt upp eða numið tímabundið úr gildi aðgang þinn að þjónustunni. Ef við segjum upp samningi við þig samkvæmt þessum almennu skilmálum munum við bjóða þér eitthvað af eftirfarandi:
- að halda aðgangi að þjónustunni þann tíma sem eftir lifir af viðkomandi áskriftartímabili eða binditíma, eða fá síðasta áskriftargjald endurgreitt með upphæð sem samsvarar takmörkuninni eða uppsögninni, án þess að áskrift þín verði endurnýjuð; og/eða
- að fá aðgang að stakri þjónustu/stökum þjónustum sem þú hefur þegar keypt með eingreiðslu það sem eftir lifir af gildistíma þjónustunnar.
Við höfum rétt á að segja upp þjónustunni fyrirvaralaust og krefjast greiðslu fyrir útistandandi áskriftargjöld, sem koma tafarlaust til greiðslu, í tengslum við eftirfarandi aðstæður:
- ef við komumst á snoðir um óviðeigandi notkun á þjónustunni eða höfum grun um óviðeigandi notkun;
- ef notandi þjónustunnar fer ekki eftir þessum almennu skilmálum; og/eða
- ef kemur til vanskila á greiðslum,
og þetta felur í sér að ef þú ert með áskrift með binditíma gæti þér verið skylt að greiða tafarlaust allt áskriftargjaldið fyrir eftirstandandi binditíma.
Réttur til að falla frá samningi
Ef þú hefur gert samning við okkur vegna notkunar á þjónustunni hefur þú, samkvæmt lögum um neytendasamninga nr. 16/2016, rétt á því að falla frá samningi innan fjórtán (14) daga eftir að kaupin fara fram („frestur til að falla frá samningi“) og fá fulla endurgreiðslu. Fresturinn til að falla frá samningi tekur gildi eftir að þú hefur móttekið staðfestingu á skráðri áskrift eða eingreiðslu. Þú hefur ekki rétt á að falla frá samningi um þjónustuna og fá endurgreitt ef þú byrjar að nota þjónustuna með því að horfa á efni í gegnum hana innan fjórtán (14) daga frá því þú fékkst staðfestingu á skráðri áskrift eða eingreiðslu. Með því að byrja að nota þjónustuna með því að horfa á efni sem þú hefur aðgang að í gegnum áskrift þína eða eingreiðslu samþykkir þú að rétturinn til að falla frá samningi falli úr gildi.
Þú getur fallið frá samningi um kaup þín með því að tilkynna okkur um þetta, munnlega eða skriflega. Þú verður að nýta þér rétt þinn til að falla frá samningi áður en fresturinn til að falla frá samningi rennur út.
Hægt er að nýta sér réttinn til að falla frá samningi með því að fylla út samræmt staðlað uppsagnareyðublað sem gefið er út í reglugerð á grundvelli g. liðar 1. mgr. 5. gr. laga um neytendasamninga nr. 16/2016, sbr. reglugerð um upplýsingar um nýtingu réttar til að falla frá samningi nr. 435/2016, þar sem einnig má finna upplýsingar um nýtingu réttar til að falla frá samningi.. Þú getur einnig fengið upplýsingar og ráðgjöf hjá Neytandastofu. Ef þú vilt nýta þér rétt þinn til að falla frá samningi skaltu vinsamlegast láta okkur vita og hafa samband með upplýsingunum í kaflanum „Samskiptaupplýsingar“ hér að neðan, eða í gegnum þjónustuverið okkar.
Ef þú vilt segja upp tilboði ferðu þess í stað inn á „Reikningurinn minn“ í samræmi við kaflann „Prufutilboð“ hér að ofan.
Kvartanir
Ef eitthvað er athugavert við þjónustuna sem ekki er afleiðing af athæfi þínu eða annars sem notar þjónustuna áttu rétt á því að brugðist sé við biluninni. Til að glata ekki kvörtunarrétti þínum verður þú að hafa samband við þjónustuver okkar í gegnum síma, tölvupóst eða póst innan hæfilegs tíma eftir að þú tekur eftir eða ættir að hafa tekið eftir biluninni og segja okkur hvers vegna þú upplifir villur í þjónustunni. Litið er svo á að tilkynningar sem berast innan tveggja (2) mánaða eftir að þú tekur eftir eða hefðir átt að taka eftir biluninni hafi borist í tæka tíð. Eftir að þú hefur lagt fram tilkynningu þína um kvörtun verður erindi þínu sinnt innan tuttugu og fjögurra (24) tíma. Ef kvörtunin er viðurkennd stöndum við straum af kostnaði við að leysa úr biluninni. Kvörtunarréttur þinn fellur úr gildi þremur (3) árum eftir að þú tekur eftir eða ættir að hafa tekið eftir biluninni, en þetta hefur í för með sér að eftir þennan tíma geturðu ekki lagt fram kvörtun nema á grundvelli ábyrgðar eða álíka. Á heimasíðu Neytendastofu er að finna nánari upplýsingar um neytandarétt þinn: https://www.neytendastofa.is.
Við áskiljum okkur rétt til að rukka þig um hugsanlegan kostnað vegna úrlausnar á bilun sem kemur til vegna athæfis þíns eða annars notanda þjónustunnar.
Hugverkaréttindi
Allt efnisinnihald sem er hluti af og tengist þjónustunni er varið af sænskum og alþjóðlegum höfundarréttarlögum. Við erum handhafar höfundarréttar og annarra huglægra réttinda hvað varðar efnisinnihald þjónustu okkar eða hluta hennar, eða erum leyfishafar réttindanna. Við látum þér í té almennt og takmarkað leyfi, án framsals, til að nota slík réttindi aðeins til þinnar eigin notkunar (og ekki í neins konar viðskiptatilgangi) að því gefnu að þú munir ekki:
- afrita, gefa út, endurgera, leigja út, birta, senda út, dreifa, senda eða gera efnisinnihald þjónustunnar aðgengilegt almenningi eða heimila neinum öðrum að gera það;
- hlaða niður, áframsenda eða deila neinu efni í þjónustunni, eða sem tengist henni á annan hátt, fá aðgang að efnisinnihaldinu úr neinu tæki sem ekki er skráð af þér eða þiggja neins konar greiðslu fyrir að horfa á þjónustuna;
- fara í kringum, breyta, fjarlægja, afbyggja eða endurbyggja, búa til afleiddar vörur, taka í sundur eða breyta þjónustunni eða eiga við neinar öryggisráðstafanir eða dulkóðun eða aðrar tæknilausnir eða forrit sem eru hluti af þjónustunni.
Engin réttindi, s.s. eignarréttur, hugverkaréttur eða annar réttur sem tengist þjónustunni eða innihaldi hennar, eru látin þér í té eða færast yfir til þín með neinum hætti.
Ávallt verður litið á brot á þessum ákvæðum, ólöglegt athæfi og hegðun sem er ekki í samræmi við kaflann „Hugverkaréttindi“ sem veigamikið brot á þessum almennu skilmálum, sem gefur okkur rétt til að loka þjónustunni og/eða loka fyrir aðgang þinn að þjónustunni, eða leita annarra leiða til að koma í veg fyrir hið óleyfilega athæfi.
Öryggi
Þér er ekki heimilt að fara í kringum eða reyna að fara í kringum öryggisráðstafanir okkar eða framkvæma tilraunir á öryggi þjónustunnar eða hafa áhrif á það með öðrum hætti.
Þér er ekki heimilt nota þjónustuna með hætti sem getur skaðað, valdið bilun, valdið yfirálagi eða skertum gæðum eða gengið á notkun þjónustunnar af hálfu annarra notenda, þ.m.t. með því að senda eða deila efni sem inniheldur vírusa eða aðra gagnakóða, skrár eða forrit sem voru búin til í þeim tilgangi að skaða, rjúfa, trufla eða takmarka virkni hvers kyns tölvuforrita eða vélbúnaðar eða búnaðar sem tengist þjónustunni með beinum eða óbeinum hætti.
Þér er ekki heimilt að gera tilraunir til að fá aðgang að neinum tölvukerfum, netkerfum, efnisinnihaldi eða upplýsingum sem tengjast vefsíðunni, þjónustunni eða kerfinu sem þjónustan byggist á. Þú mátt ekki heldur reyna að halda eftir aðgangi að efni eða upplýsingum sem hafa tímabundið verið gerð aðgengileg eða sem hægt er að nálgast í gegnum þjónustuna.
Ávallt verður litið á brot af þessu tagi sem alvarlegt brot á þessum almennu skilmálum, sem gefur okkur rétt til að loka þjónustunni og/eða loka fyrir aðgang þinn að þjónustunni tafarlaust, eða leita annarra leiða til að koma í veg fyrir hið óleyfilega athæfi.
Skaðabótaskylda af okkar hálfu
Þjónustan er seld eins og hún er og „þegar hún er aðgengileg“ og því tökum við enga ábyrgð eða bindandi skuldbindingu hvað varðar nákvæmni eða fullkomleika þegar kemur að efnisinnihaldi, upplýsingum, þjónustunni eða öðru efni sem er aðgengilegt í þjónustunni eða í gegnum hana. Á víðtækustu forsendum ábyrgjumst við því ekki né lofum, hvorki með beinum né óbeinum hætti, virkni þjónustunnar, aðgengi, gæði, notkunarmöguleika eða öryggi.
Við, tengd fyrirtæki/fyrirtækjahópurinn og samstarfsaðilar berum ekki undir neinum kringumstæðum skaðabótaábyrgð vegna neins konar beins, óbeins, tilfallandi eða sértæks tjóns eða afleidds tjóns sem er afleiðing af notkun þjónustunnar, eða af því að geta ekki notað þjónustuna, eða af hvers kyns þjónustu þriðja aðila sem tengst er í gegnum vefsíðuna eða þjónustuna.
Ekkert í þessum almennu skilmálum takmarkar lögbundna skaðabótaskyldu okkar.
Skaðabótaskylda
Þú samþykkir bótaskyldu þína og að þú sjáir til þess að við, öll fyrirtæki innan fyrirtækjahópsins, tengd fyrirtæki okkar og samstarfsaðilar verðum ekki fyrir tjóni, tapi, skaðabótakröfum, kröfum, kostnaði og útgjöldum, þ. á m. kostnaði vegna réttindamála, sem er afleiðing af eða tengist þínu athæfi sem gengur gegn þessum almennu skilmálum, viðeigandi lögum, reglugerðum eða réttindum þriðju aðila.
Samfélagsmiðlar
Í gegnum þjónustuna geturðu valið að deila efnisinnihaldi úr þjónustunni í gegnum samfélagsmiðlaþjónustu, þ. á m. á Facebook, Instagram og Twitter („samfélagsmiðlar“), en þetta getur haft í för með sér að tilteknar upplýsingar um notandareikninginn þinn, t.d. notandanafn þitt, gæti orðið sýnilegt öðrum notendum á samfélagsmiðlunum. Við berum ekki ábyrgð á innihaldi þegar deilt er á samfélagsmiðlum. Ef þú notar samfélagsmiðla í tengslum við þjónustuna samþykkirðu að þú munir ekki:
- móðga, áreita, hneyksla, þykjast vera aðrir notendur, leggja aðra notendur í einelti eða senda þeim ruslpóst;
- birta eða búa til efni sem felur í sér hneykslun, áreiti, rógburð, klám eða ruddaskap;
- nota notandasíðuna/samfélagsmiðla í tilgangi sem er ólöglegur, siðlaus eða skaðlegur; eða
- ganga á réttindi þriðju aðila.
Tenglar af vefsíðu okkar
Þegar vefsíðan er notuð getur hún innihaldið tengla á aðrar vefsíður sem eru í umsjón þriðju aðila. Við höfum enga stjórn á innihaldi þessara vefsíðna og ábyrgjumst ekki með neinum hætti tap eða tjón sem kann að vera afleiðing af því að þú notar þessa tengla.
Lögsagnarumdæmi og viðeigandi löggjöf
Þessir almennu skilmálar og hvers kyns deilumál eða kröfur sem koma upp í tengslum við þá (þ. á m. deilur eða kröfur utan samninga) skulu lúta íslenskum lögum og túlkast út frá þeim.
Ef deilumál kemur upp á milli þín og Fyrirtækið skulu báðir málsaðilar til að byrja með freista þess að leysa deilumálið með samkomulagi. Ef málsaðilar komast ekki að samkomulagi má óska eftir úrskurði frá viðurkenndum úrskurðaraðila og kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, að því gefnu að deilumálið heyri undir viðkomandi og að það sé tækt fyrir úrskurð af hálfu þeirra, sbr. lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019 og reglugerð nr. 1177/2019 um kærunefnd vöru og þjónustukaupa.. Málsaðilar hafa þó ávallt rétt til að vísa málinu til dómstóla.
ESB býður einnig upp á úrlausnarleið á netinu vegna deilumála sem þú getur notað til að fá úrskurð ef þú ert óánægð(ur) með vörur eða þjónustu sem þú hefur keypt af okkur á netinu. Þessi úrlausnarleið er aðgengileg á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ec.europa.eu/consumers/odr. Í gegnum þessa úrlausnarleið á netinu geturðu m.a. rætt vandamálið beint við okkur eða verið vísað til úrskurðarnefndar sem tekur deilumálið fyrir.
Útfærslur
Við áskiljum okkur rétt til þess hvenær sem er að breyta þessum almennu skilmálum. Hægt er að kynna sér gildandi almenna skilmála á vefsíðunni. Við mælum með því að þú gætir þess að heimsækja vefsíðuna reglulega til að fá alltaf nýjustu upplýsingar.
Í hvert sinn sem veigamikil breyting eða viðbót verður á þessum almennu skilmálum muntu fá tilkynningu um veigamiklu breytinguna og/eða viðbótina í gegnum tölvupóst eða notandareikning þinn í þjónustunni, eigi síðar en þrjátíu (30) dögum áður en breytingin og/eða viðbótin tekur gildi, en þetta gefur þér færi á að segja þjónustunni upp fyrir dagsetninguna sem slík breyting/viðbót tekur gildi, í samræmi við þessa almennu skilmála.
Afsal
Þessir almennu skilmálar gilda eingöngu um einstaka notendur og þér er ekki heimilt að afsala réttindum þínum né skyldum samkvæmt þessum almennu skilmálum eða hlutum þeirra til þriðja aðila. Við höfum rétt á því, án samþykkis, að afsala réttindum okkar og skyldum samkvæmt þessum almennu skilmálum eða hlutum þeirra til þriðja aðila eða annars fyrirtækis innan fyrirtækjahópsins.
Samningurinn í heild sinni
Þessir almennu skilmálar, ásamt persónuverndarstefnu og vefkökustefnu okkar, mynda saman samninginn á milli þín og okkar, sem kemur í stað hvers kyns fyrri skriflegra eða munnlegra samninga sem varða innihaldið í þessum samningum.
Ófyrirséðir atburðir
Við höfum enga skaðabótaskyldu gagnvart þér ef útsendingarvirkni okkar, dreifing á þjónustunni og/eða starfsemi okkar að öðru leyti samkvæmt þessum almennu skilmálum er takmörkuð, hindruð eða seinkuð eða ef aðgengi og/eða virkni þjónustunnar eða vefsíðunnar takmarkast, hindrast eða seinkar af lagalegum orsökum, vegna stjórnvaldsákvarðana og/eða af öðrum sökum sem við höfum ekki stjórn yfir.
Ógilding ákvæða
Ef eitthvert ákvæði í þessum samningi telst vera ógilt eða ekki er hægt að framkvæma það skal umrætt ákvæði ekki með nokkrum hætti hafa áhrif, ógilda eða koma í veg fyrir framkvæmd annarra ákvæða í þessum almennu skilmálum, og beiting þessa ákvæðis skal vera samkvæmt lögum.
Samskiptaupplýsingar
Ef eitthvað er óljóst, ef þú vilt spyrja spurninga um notkun vefsíðunnar þjónustunnar eða ef þú þarft af öðrum sökum að hafa samband skaltu vinsamlegast senda póst á support@viaplay.is eða hafa samband í gegnum þjónustuverið.